Íslenskir blaðamenn hafa verið við störf á Maksimir-leikvanginum í Zagreb í dag. Leikvangurinn er rúmlega aldargamall og margt áhugavert að sjá.
Stúkur eru á öllum endum vallarins en þær passa ekkert sérstaklega vel saman. Þá eru engin þök yfir stúkunum en til samanburðar er þess krafist að öll lið í efstu deild karla á Íslandi spili heimaleiki sína á völlum með stúku með þaki. Hlaupabraut er svo allan hringinn.
Króatíski blaðamaðurinn Aleksandar Holiga sagði í viðtali við Fréttablaðið á dögunum að leikvangurinn væri illa liðinn.
„Við köllum leikvanginn ýmist þann ljótasta í Evrópu eða skömm Maksimir,“ segir Holiga en Maksimir er nafn á hverfinu í Zagreb þar sem má meðal annars finna stóran almenningsgarð og dýragarð auk leikvangsins.
Í glugganum að ofan má sjá skemmtilegar myndir sem Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, tók á leikvanginum í dag.
Er þetta ljótasti leikvangurinn í Evrópu? - myndir
Kolbeinn Tumi Daðason í Zargreb skrifar
