Skotinn Andy Murray gekkst í gær undir minniháttar aðgerð vegna bakmeiðsla sinna.
Tenniskappinn 26 ára segir að fyrstu orð sín eftir að hann vaknaði að loknum uppskurðinum hafi verið: „Vann ég leikinn?“
Ekki er reiknað með því að Murray taki þátt í fleiri mótum á tímabilinu. Hann stefnir sjálfur á að hefja undirbúning fyrir næsta keppnistímabil í Miami í nóvember.
Bakmeiðsli Murray urðu til þess að hann dró sig út úr Opna franska meistaramótinu í maí. Hann náði þó að jafna sig fyrir Wimbledon í júlí þar sem hann vann frækinn sigur.
