Breiðablik varð í dag bikarmeistari í knattspyrnu kvenna eftir frábæran sigur á Þór/KA, 2-1. Það var fyrrum leikmaður Þór/KA Rakel Hönnudóttir sem tryggði Blikum sigurinn með öðrum marki Breiðabliks í síðari hálfleik.
Leikurinn fór rólega af stað og ljóst að spennustigið var hátt. Sendingar rötuðu illa á samherja og liðin gáfu sér fyrstu fimm mínúturnar í að hrista skrekkinn úr sér.
Norðanstúlkur áttu þá ágætis spretti en náðu ekki að skapa sér nein færi að viti. Blikastúlkur fundu þá taktinn og yfirspiluðu Þór/KA næstu mínúturnar.
Fyrsta markið leit dagsins ljós á 19. mínútu leiksins þegar Blikar fengu hornspyrnu. Hlín Gunnlaugsdóttir átti frábæra hornspyrnu inn á teiginn og beint á kollinn á Guðrúnu Arnarsdóttur.
Guðrún stökk hærra en allar aðrar og skallaði knöttinn laglega í markið. Næstu mínútur voru svipaðar þar sem þær grænklæddu voru mun betri.
Á síðustu tíu mínútum hálfleiksins sótti Þór/KA í sig veðrið og áttu þær norðlensku ágætis marktækifæri. En allt kom fyrir ekki og Blikar fóru með eins marka forystu inn í hálfleik.
Norðanstúlkur byrjuðu síðari hálfleikinn vel og voru ekki lengi að jafna metin þegar Katrín Ásbjörnsdóttir skallaði boltann í netið eftir frábæra sendingu úr aukaspyrnu frá Mateja Zver.
Blikar létu mark Þórs/KA ekki hafa mikil áhrif á sig og náðu að komast aftur yfir tíu mínútum síðar þegar Rakel Hönnudóttir setti boltann í netið.
Blikar héldu leikinn út og náðu að innbyrða bikarmeistaratitilinn eftirsótta. Tíundi bikarmeistaratitill félagsins kominn í hús. Frábær árangur og nokkuð sanngjarn sigur.
Breiðablik bikarmeistari árið 2013 | Myndir
Sigmar Sigfússon skrifar

Mest lesið






Ný átta sekúndna regla innleidd hér á landi
Íslenski boltinn




Þungarokkarar skemmdu meistarafána Bulls
Körfubolti