Tommy Haas, 34 ára gamall Þjóðverji, vann óvæntan sigur á Serbanum Novak Djokovic í 4. umferð á Sony Open tennismótinu í Miami í nótt en Djokovic er efstur á heimslistanum og var búinn að vinna þetta mót tvö undanfarin ár.
Djokovic tapaði hinsvegar leiknum í nótt í tveimur settum; 2-6 og 4-6. Hann var fyrir þennan leik búinn að vinna fjórtán leiki í röð á Key Biscayne vellinum.
„Það koma dagar þegar hlutirnir ganga ekki upp hjá manni og þetta var einn af þeim. Hann var betri spilarinn en þetta var jafnframt lélegasti leikur minn í langan tíma," sagði Novak Djokovic.
Tommy Haas hefur einu sinni áður unnið toppmann heimslistans því hann vann Andre Agassi árið 1999 þegar Agassi var númer eitt á heimslistanum. Haas verður 35 ára eftir aðeins átta daga og varð í nótt elsti maðurinn í 30 ár til að vinna efsta mann heimslistans.
Tommy Haas er þar með kominn í átta manna úrslit á Sony Open mótinu. Hann mætir þar Gilles Simon frá Frakklandi.

