Körfubolti

Erlendum leikmönnum fækkað í efstu deild karlakörfunnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik KR og Stjörnunnar.
Úr leik KR og Stjörnunnar. Mynd/Valli
Svokölluð 4+1 regla verður tekin upp í efstu deild karla í körfubolta en tilllaga þess efnis var samþykkt á ársþingi KKÍ í dag.

Reglan hefur verið í gildi í bæði efstu deild kvenna og 1. deild karla. Samkvæmt henni er liðum skylt að vera með fjóra íslenska leikmenn á vellinum hverju sinni.

3+2 regla hefur verið við gildi í efstu deild karla í vetur en þá mega lið vera með tvo erlenda leikemnn inn á vellinum í einu.

Engin takmörk eru sett um hversu marga erlenda leikmenn liðin eru með í sínum leikmannahópum, heldur aðeins um hversu margir geta spilað samtímis á vellinum.

Miklar umræður voru um tillöguna á ársþinginu í dag og var hún á endanum samþykkt með naumum meirihluta. Reglan tekur gildi fyrir næsta keppnistímabil.

Tillaga um að taka aftur upp gömlu „Kanaregluna" var felld með miklum meirihluta. Samkvæmt henni máttu lið bara vera með einn Bandaríkjamenn í sínum röðum en ótakmarkaðan fjölda svokallaðra „Bosman-leikmanna".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×