Fótbolti

Ísland niður um níu sæti á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Íslands og Rússland.s
Frá leik Íslands og Rússland.s Mynd/AFP
Íslenska karlalandsliðið er í 98. sæti á nýjum Styrkleikalista FIFA sem var gefinn út í morgun. Íslenska liðið fellur um níu sæti frá síðasta lista sem var gefin út 17. janúar síðastliðinn.

Ísland spilaði einn leik frá því að síðasta listi var tekinn saman en íslenska liðið tapaði þá 0-2 á móti Rússlandi í vináttulandsleik á Spáni. Rússar eru áfram í 9. sæti listans.

Ísland og Moldavía voru þær tvær Evrópuþjóðir sem lækkuðu mest á listanum, um níu sæti hvor þjóð, en Albanía og Austurríki duttu báðar niður um átta sæti. Wales fór upp um 13 sæti og hækkaði sig langmest meðal Evrópuþjóða.

Staða efstu ellefu landsliðanna breyttist ekkert á milli lista en Spánn er númer eitt, Þýskaland er númer tvö og Argentína er númer þrjú. Enska landsliðið er í sjötta sæti.

Nýkrýndir Afríkumeistarar Nígeríu fóru upp um 22 sæti og eru núna í 30. sæti listans. Burkina Faso sem komst óvænt í úrslitaleikinn hoppaði upp um 37 sæti og er nú 55. besta knattspyrnuþjóð heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×