Sport

Styrkleikaröðun gefin út fyrir Opna ástralska

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Novak Djokovic er í efsta sæti heimslistans í einliðaleik karla.
Novak Djokovic er í efsta sæti heimslistans í einliðaleik karla. Nordic Photos / Getty Images
Opna ástralska meistaramótið í tennis, fyrsta stórmót nýja ársins, hefst í næstu viku. Í dag voru gefin út styrkleikaröðun 32 bestu keppenda mótsins.

Eins og vanalega er fyrst og fremst stuðst við heimslista Alþjóðatennissambandsins og er því Serbinn Novak Djokovic í efsta sæti í einliðaleik karla. Roger Federer er annar og Andy Murray þriðji.

Þessir þrír hafa ásamt Spánverjanum Rafael Nadal borið höfuð og herðar yfir aðra í tennisheiminum síðastliðin ár en Nadal verður ekki með í Ástralíu vegna meiðsla.

Victoria Azarenka frá Hvíta-Rússlandi er í efsta sæti styrkleikalistans í kvennaflokki. Maria Sharapova er önnur en á eftir henni kemur Serena Williams.

Djokovic og Azarenka fögnuðu bæði sigri á þessu móti í fyrra en það voru jafnframt einu sigrar þeirra á stórmótum síðasta árs.

Andy Murray kláraði árið með því að vinna gull á Ólympíuleikum og fagna svo sigri á Opna bandaríska meistaramótinu í september. Roger Federer vann hins vegar Wimbledon-mótið.

Í kvennaflokki var Serena Williams nánast óstöðvandi á síðari hluta keppnistímabilsins. Hún vann Wimbledon-mótið, gull á Ólympíuleikunum og svo Opna bandaríska.

Styrkleikaröðunin kemur í veg fyrir að bestu keppendur mótsins mætist innbyrðis í fyrstu umferðunum. Ef öll úrslitin fara eftir bókinni svokölluðu munu tveir bestu keppendurnir mætast í úrslitaviðureigninni.

Styrkleikaröðunina má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×