Skoðun

Atvinnuleitendur eru ekki allir eins

Þorsteinn Fr. Sigurðsson skrifar
Síðsumars hóf Starf – vinnumiðlun og ráðgjöf (STARF), að þjóna um fjórðungi atvinnuleitenda á atvinnuleysisskrá, einstaklingum sem fram til þess tíma höfðu verið skjólstæðingar Vinnumálastofnunar. Um er að ræða þriggja ára tilraunaverkefni Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) um aukna þjónustu við atvinnuleitendur. Verkefnið er byggt á samkomulagi þessara aðila við velferðarráðuneytið og varð til í tengslum við gerð kjarasamninga í maí 2011. Þessir einstaklingar sem færðust yfir til STARFs í þjónustu, eru félagar í tilgreindum stéttarfélögum sem taka þátt í verkefninu.

Ljóst er að það hentar atvinnuleitendum betur að sækja þessa þjónustu til síns stéttarfélags, sem þegar er að veita félögum sínum umtalsverða þjónustu á öðrum sviðum. Þjónusta STARFs fer fram í félagslegu umhverfi atvinnuleitandans og er veitt af atvinnuráðgjöfum sem þekkja starfsumhverfi viðkomandi fagfélags. Þeir hafa því betri sýn á bakgrunn og starfsreynslu atvinnuleitandans.

Tilgangurinn er að þjónustan verði markvissari og er það sannfæring þeirra sem að verkefninu standa að aðkoma SA að því tryggi nánari tengingu við atvinnulífið en náðst hefur fram til þessa. Þessi samvinna heildarsamtaka stéttarfélaga (ASÍ) og heildarsamtaka atvinnulífsins (SA) í aðgerðum gegn atvinnuleysi, er sennilega einstök á alþjóðavísu.

Samsvarandi úrræði

Markmið tilraunaverkefnisins er að auka þjónustu við atvinnuleitendur. Eftir sem áður stendur atvinnuleitendum innan verkefnisins til boða samsvarandi vinnumarkaðsúrræði og Vinnumálastofnun hefur boðið upp á og lögboðin eru. Námsúrræðin eiga að auka hæfni einstaklingsins svo hann eigi meiri möguleika á að finna starf við hæfi.

Jafnframt verða í boði samningar við fyrirtæki um reynsluráðningar eða tímabundin störf atvinnuleitenda, þar sem viðkomandi fyrirtæki fær til sín atvinnuleysisbætur einstaklingsins meðan á samningstímanum stendur, en þarf að greiða viðkomandi kjarasamningsbundin laun á meðan. Aðaláhersla STARFs mun liggja í vinnumiðluninni sjálfri, með það meginmarkmið að koma atvinnuleitendum aftur til starfa.

Fjórar þjónustumiðstöðvar

Til að tryggja gæði og samræmingu á þjónustunni stofnuðu ASÍ og SA sameiginlega fyrirtækið Starf – vinnumiðlun og ráðning og annast það framkvæmd verkefnisins. Vel menntaðir og reyndir atvinnuráðgjafar voru ráðnir til starfa og er þjónustan nú veitt á fjórum þjónustumiðstöðvum stéttarfélaga. Stærst er þjónustumiðstöðin hjá VR í Kringlunni og þjónar hún félagsmönnum VR á höfuðborgarsvæðinu (félagsmenn VR eru fjölmennastir innan tilraunaverkefnisins). Önnur þjónustumiðstöð er hjá iðnfélögum í Borgartúni fyrir þeirra félaga á höfuðborgarsvæðinu. Á Suðurnesjum sameinast fimm stéttarfélög um þjónustumiðstöð sem er rekin á skrifstofu Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Fjórða þjónustumiðstöðin er svo á Austurlandi, á skrifstofu Afls – Starfsgreinafélags á Egilsstöðum og þjónar félögum allra stéttarfélaga innan ASÍ á Austurlandi.

Þjónustan markvissari

Vinnuveitendur ættu að sjá sér hag í að leita starfskrafta til þjónustumiðstöðva STARFs, þar sem hver þjónustumiðstöð er með atvinnulausa félaga skilgreindra stéttarfélaga á ákveðnum starfssvæðum. Þá þekkja atvinnuráðgjafar STARFs gjarnan þarfir fyrirtækjanna sem nýta starfskrafta félaga í þeirra stéttarfélögum.

Í gagnagrunni hvers atvinnuráðgjafa er skilgreindur hópur atvinnuleitenda, en ekki allir atvinnuleitendur landsins. Þjónustan er því markvissari en verið hefur þar sem þekking er til staðar á „faginu" og mun dýpri skilningur á þörfum, fagþekkingu og á starfsreynslu viðkomandi hóps atvinnuleitenda. Einnig eru sér þjálfaðir atvinnuráðgjafar STARFs með beina tengingu inn í þau stéttarfélög sem þeir starfa með. Þeir eru því meðvitaðir um aðra þjónustu stéttarfélaganna sem og starfsumhverfi þeirra og þjónustan öll sótt á einn stað.

Rekstur STARFs er fjármagnaður af Atvinnuleysistryggingarsjóði. Yfirbyggingu og rekstrarkostnaði er haldið í algjöru lágmarki, öll áhersla er á kjarnastarfssemina, ráðgjafahlutann. STARF hefur opnað vefsíðu þar sem fyrirtæki geta skráð laus störf á þeirra vegum. Þar er einnig að finna greinargóðar upplýsingar fyrir atvinnuleitendur og atvinnurekendur (www.starfid.is).

Það er von og trú þeirra öflugu samtaka sem standa að rekstri STARFs – vinnumiðlunar og ráðgjafar að tilkoma þess verði atvinnuleitendum til framdráttar og er leitað eftir góðu samstarfi við atvinnuleitendur og atvinnurekendur við framkvæmd verkefnisins.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×