Skoðun

Ætlar ríkisstjórnin að rústa ferðaþjónustunni?

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Nú síðsumars tilkynnti fjármálaráðherra um hækkun virðisaukaskatts á gistingu og mun hækkunin taka gildi á næsta ári. Áætlað er að skatttekjur af þessari skattahækkun verði 3,5 milljarðar á ársgrunni en til viðmiðunar þá var framlegð 35 stærstu hótela landsins 600 milljónir árið 2011.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er löngum talin hafa horn í síðu atvinnureksturs og ferðaþjónustan mátti því búast við höggi. Beinum störfum í ferðaþjónustu fjölgaði um 6,1% árið 2011 og skapar hún yfir 12.000 manns beina atvinnu en svo virðist vera sem stjórnvöld setji það í sérstakan forgang að skekkja grundvöll atvinnurekstar sem hvorttveggja í senn skapar vaxandi útflutningstekjur og er einn helsti vaxtarsprotinn í atvinnulífi landsins.

Ísland verður með hæstu gistináttaskatta í Evrópu!

Íslensk ferðaþjónusta er í harðri alþjóðlegri samkeppni. Með því að hækka virðisaukaskattinn í 25,5% verður skattlagning á gistingu með því hæsta sem þekkist í heiminum. Til samanburðar má nefna að skattur á gistingu er 9% í Noregi, 12% í Svíþjóð en meðaltal innan ESB er 11%. Þetta mun hafa bein áhrif á greinina í heild sinni; veitingarekstur, flug, bílaleigur og aðra þjónustu og verslun. Samdrátturinn mun vitanlega bitna á tekjum ríkissjóðs. Skattahækkun getur auðveldlega skert skatttekjur og þá er betur heima setið en af stað farið. Tilraunastarfsemi í skattlagningu er ekki leiðin til árangurs.

Framsókn mun draga þessar tillögur til baka!

Framsóknarflokkurinn telur að ítrekaðar óvinveittar aðgerðir gegn ferðaþjónustunni sýni að ríkisstjórnin sé skilningsvana á atvinnurekstur almennt. Dragi ríkisstjórnin þessar tillögur ekki til baka þá hlýtur það að verða forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar að stöðva þessar árásir á ferðaþjónustuna. Ofurskattastefnu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna verður að linna. Innan tíðar verður gengið til kosninga og þá gefst tækifæri til að leiðrétta hin mörgu gönuhlaup ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×