Skoðun

Einstakt tækifæri kjósenda

Jóhanna Sigurðardóttir skrifar
Senn líður að lokaáfanga á merkri vegferð sem hófst þegar víðtæk samstaða flestra stjórnmálaflokka náðist á Alþingi vorið 2010 um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þótt sú ferð hafi ekki reynst áfallalaus hefur árangurinn og uppskeran verið góð og í fullu samræmi við væntingar.

Einstigið á milli varðanna sem Alþingi reisti hefur verið fetað. Frá Alþingi til þúsund manna þjóðfundar, frá þjóðfundi til sérfræðinganefndar og frá sérfræðinganefndinni til stjórnlagaráðs, sem skipað var í samræmi við niðurstöðu almennra og lýðræðislegra kosninga, niðurstöðu sem ekki hefur verið dregin í efa efnislega, enda þótt annmarkar hafi talist vera á formlegri framkvæmd kosninganna.

Sú leið sem Alþingi varðaði vorið 2010 var afar metnaðarfull. Hún var síðast en ekki síst lýðræðisleg og Alþingi Íslendinga til mikils sóma. Með ákvörðun sinni sýndi Alþingi því skilning að heildstæð endurskoðun stjórnarskrárinnar er stærra mál en svo að það verði alfarið til lykta leitt innan veggja Alþingis, heldur þurfi jafnframt að tryggja ríka aðkomu almennings að endurskoðunarferlinu öllu.

Þjóðaratkvæðagreiðslan þann 20. október næstkomandi felur í sér einstakt tækifæri fyrir íslenska þjóð til að hafa bein áhrif á mótun þeirra grunnreglna sem samfélag okkar verður byggt á til framtíðar.

Þetta er tækifæri sem enginn kosningabær Íslendingur ætti að láta fram hjá sér fara, því engin trygging er fyrir því að annað eins tækifæri muni gefast aftur á komandi árum.

Jákvæð niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni mun fela í sér skýr skilaboð til Alþingis um að ljúka endurskoðunarferlinu á grundvelli tillögu stjórnlagaráðs.

Í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu verða ekki einungis greidd atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs í heild sinni heldur munu kjósendur einnig fá einstakt tækifæri til að segja álit sitt á nokkrum mikilvægum úrlausnarefnum sem taka þarf afstöðu til í tengslum við nýja stjórnarskrá.

Má þar nefna hvort náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu skuli lýstar þjóðareign, hvort auka eigi persónukjör í kosningum til Alþingis, hvort jafna eigi atkvæðavægi kjósenda, hvort stjórnarskráin eigi að innihalda ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi og hvort tryggja eigi rétt fólks til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál.

Mikilvægt er að þjóðin gefi Alþingi skýra leiðsögn í þessum efnum enda hefur reynslan sýnt að þessi mál hafa reynst Alþingi erfið úrlausnar.




Skoðun

Sjá meira


×