Skoðun

Lítil athugasemd

Pétur Gunnarsson skrifar
Í Fréttablaðinu 3. sept. sl. vakti athygli mína lítil klausa. Tilefnið var undirskrift gegn því að öræfi Íslands væru seld útlendingum, en greinarhöfundur setur síðan atburðinn í óvænt samhengi við undirskriftasöfnun sextíumenninganna frá 1964 þar sem hvatt var til takmörkunar á útsendingum hersjónvarpsins sem þá var við lýði.

Við þetta er ýmislegt að athuga og þá helst þetta: Um áratugaskeið var bandarísk herstöð á Íslandi sem klauf þjóðina í fylkingar með og móti, sennilega jafn stórar um það bil sem téð undirskriftasöfnun átti sér stað. Þegar hér var komið sögu hafði herstöðin, auk þess að verja landið fyrir utanaðkomandi árás, tekið að sér að sjónvarpa afþreyingarefni eins langt og stöðin dró, þ.e. um suðvestanvert landið.

Á þeim tíma var ekkert sjónvarp á Íslandi þannig að áhrifamesti fjölmiðill samtímans var í höndum erlendrar herstöðvar, umdeildrar, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Af því leiddi að jafnvel stuðningsmönnum hersetunnar ofbauð, sumum hverjum, og lögðu því nafn sitt við listann. Að gefa í skyn að sú undirskriftasöfnun hafi á einhvern hátt misst marks af því nú geti landsmenn náð fjölda erlendra stöðva í tækin sín er varla samboðið Kolbeini Óttarssyni Proppé. Eða hvað?

Pétur Gunnarssonrithöfundur




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×