Skoðun

Sáttavilji ítrekaður

Jóhanna Sigurðardóttir skrifar
Nú er fallinn í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur í máli sem varðar skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu þar sem ríkið er sýknað af háum skaðabótum en dæmt til þess að greiða miskabætur.

Dómurinn kveður á um að greiddar skuli 500 þúsund krónur í miskabætur, sama fjárhæð og ég bauð til sátta þegar í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála. Sjónarmið mitt var frá upphafi að leita allra leiða til sátta í málinu þannig að það þyrfti ekki á neinu stigi að fara fyrir dómstóla. Þeim sáttavilja mínum var ítrekað komið á framfæri við kæranda, bæði munnlega og skriflega, eins og rakið er í málsgögnum.

Ég ákvað að fara ekki í mál til ógildingar úrskurði kærunefndar jafnréttismála, þvert á það sem haldið hefur verið fram í fjölmiðlum, enda hefur ýmsu verið snúið á hvolf í þessu máli í opinberri umræðu. Dómurinn nú byggir á því, að fyrst ekki hafi verið höfðað slíkt ógildingarmál beri að líta svo á að úrskurður kærunefndar jafnréttismála sé bindandi, samkvæmt ákvæði í jafnréttislögum sem ekki hefur reynt á áður. Ákvæði sem ég sem félags- og tryggingamálaráðherra lagði áherslu á að öðlaðist lagagildi og styrkti þannig umhverfi jafnréttismála.

Nú liggur niðurstaða Héraðsdóms fyrir og er dómurinn í góðu samræmi við þá sátt sem ég ítrekað bauð. Miskabætur skal samkvæmt dómnum greiða vegna yfirlýsingar sem birt var á vef forsætisráðuneytisins í tilefni af úrskurði kærunefndar jafnréttismála og einnig vegna skipan rýnihóps hlutlausra sérfræðinga. Rýnihópurinn átti að meta hvaða lærdóm mætti draga af málinu, meðal annars hvernig hægt væri að samræma vinnubrögð og viðmið innan Stjórnarráðsins við opinberar embættisveitingar. Í ljósi niðurstöðu dómsins er sjálfsagt að biðja stefnanda, Önnu Kristínu Ólafsdóttur, velvirðingar á þeim miska sem málið kann að hafa valdið henni.




Skoðun

Sjá meira


×