Ein af þeim mörgu hefðum sem einkennir bandaríska meistaramótið í golfi er útbúnaður kylfusveina. Þeim er öllum gert að klæðast hvítum klæðnaði, sem merktur er kylfingnum þeirra á bakinu. Auk þess eiga þeir að vera með sérstakar grænar derhúfur og í hvítum íþróttaskóm.
Allt fram til ársins 1982 var keppendum gert að nýta þjónustu kylfusveina sem voru á mála hjá Augusta National-klúbbnum og máttu því ekki nota sína eigin sveina. Það var jafnframt bundið í lög og reglur klúbbsins að allir kylfusveinar klúbbsins skyldu vera svartir.
Kylfusveinn sigurvegara fyrra árs fær ávallt að merkja sig tölustafnum 1. Hinir kylfusveinarnir fá svo númer eftir því í hvaða röð kylfingurinn þeirra skráði sig til leiks í mótið.
