Alls 45 fyrirtæki hafa fengið skuldir niðurfelldar fyrir milljarð króna eða meira í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu. Níu fyrirtæki hafa að auki fengið felldar niður skuldir fyrir milljarð eða meira, eða svo háum skuldum breytt í hlutafé, í tengslum við nauðasamninga. Alls hafa því 54 fyrirtæki fengið skuldir felldar niður fyrir milljarð eða meira.
Þetta kemur fram í tölum sem eftirlitsnefnd um framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar hefur gert aðgengilegar á vefsíðu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Tölurnar miðast við tímabilið til 30. september 2011.
Flest fyrirtækjanna 45 eru verslunar- og þjónustufyrirtæki eða 16 talsins. Þá eru á listanum átta fasteignafélög og átta fjárfestingar- og eignarhaldsfélög.
Heildarskuldir fyrirtækjanna 45 við viðkomandi fjármálafyrirtæki voru rúmlega 482 milljarðar króna. Hafa 69 prósent skuldanna verið felld niður, eða 331 milljarður. Þá hefur skuldum að fjárhæð 29,6 milljarðar verið breytt í hlutafé.
Sjö af þeim níu fyrirtækjum sem hafa fengið skuldir felldar niður í tengslum við nauðasamninga eru fjárfestingar- og eignarhaldsfélög. Heildarskuldir fyrirtækjanna níu voru um 355 milljarðar. Þar af hafa 218 milljarðar verið felldir niður, eða 61 prósent. Skuldum að fjárhæð 92 milljarðar hefur verið breytt í hlutafé. - mþl

