Leikstjórnandinn Robert Griffin III, eða RG3 eins og hann er kallaður, hefur heldur betur slegið í gegn í NFL-deildinni á nýliðaári sínu með Washington Redskins.
RG3 hefur þegar landað mörgum stórum auglýsingasamningum og aðdáendur hans eru fjölmargir enda selur hann flestar treyjur allra leikmanna í deildinni á heimasíðu deildarinnar.
NFL-búðin hefur gefið út sölutölur síðustu sex ár og enginn hefur selt eins margar treyjur á einu tímabili og RG3. Það er mögnuð staðreynd.
Annar á listanum er goðsögnin Peyton Manning en margir urðu að fá sér nýja Manning-treyju er hann flutti sig um set til Denver Broncos.
Næstir þar á eftir eru Aaron Rodgers (Green Bay), Eli Manning (NY Giants), Tom Brady (New England) og nýliðinn Andrew Luck (Indianapolis).

