Sport

Langþráður úrslitaleikur hjá Wozniacki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danska tenniskonan Caroline Wozniacki.
Danska tenniskonan Caroline Wozniacki. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danska tenniskonan Caroline Wozniacki hefur hrunið niður heimslistann á þessu ári enda hefur ekkert gengið hjá þessum fyrrum bestu tenniskonu heims. Hún byrjaði árið 2012 í efsta sæti en er nú komin niður í ellefta sæti eftir skelfilegt gengi undanfarna mánuði.

Það létti þó aðeins til hjá Wozniacki í nótt þegar hún tryggði sér sæti í úrslitaleiknum á WTA-móti í Seoul í Suður-Kóreu. Wozniacki á þar möguleika á það vinna sitt fyrsta mót á árinu en hún vann sex mót í fyrra og sex mót árið þar á undan.

Caroline Wozniacki vann rússnesku tenniskonuna Ekaterina Makarova í undanúrslitunum 6-1, 5-7 og 6-4 og komst þar með í sinn fyrsta úrslitaleik á móti síðan í apríl þeagr hún tapaði á móti Þjóðverjanum Angelique Kerber í Kaupmannahöfn.

Wozniacki mun mæta Kaia Kanepi frá Eistlandi í úrslitaleiknum í Seoul en sú eistneska var í 16. sæti á nýjasta heimslistanum, fimm sætum neðar en sú danska. Wozniacki hefur unnið 3 af 5 viðureignum þeirra og er sigurstrangleg í úrslitaleiknum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×