Símafyrirtækið Nova byrjar að selja nýja iPhone símann, iPhone 5, klukkan fimm í dag. Um takmarkað magn er að ræða. „Þeir eru fleiri en 50 og færri en 100," segir Margrét Tryggvadóttir, yfirmaður markaðssviðs Nova í samtali við Vísi. Í tilkynningu frá félaginu kemur aftur á móti fram að ný sending er væntanleg síðar í vikunni.
Gríðarleg eftirvænting hefur ríkt um allan heim vegna nýja símans, en um helgina seldust yfir 5 milljónir eintaka, eftir því sem fram kom í fréttum erlendra miðla í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Nova hefur nú þegar fjöldi viðskiptavina Nova forpantað hann.
iPhone 5 kostar 179.990 krónur hjá Nova og innifalin er 2.000 króna notkun á mánuði í 12 mánuði. Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu kemur verðið væntanlega til með að lækka eitthvað en óljóst er hvenær það verður.
