Sport

Óvíst um þátttöku Nadal í Melbourne

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Spánverjinn Rafael Nadal virðist eiga langt í land með að ná sér góðum af meiðslunum sem hafa verið að plaga hann síðan í sumar.

Nadal hefur verið að glíma við meiðsli í hné síðustu þrjá mánuðina og missti til að mynda af Ólympíuleikunum af þeim sökum. Hann spilaði síðast á Wimbledon-mótinu er hann tapaði mjög óvænt fyrir tékkanum Lukas Rasol.

Nadal segir við enska fjölmiðla í dag að það sé ólíklegt að hann spili meira á árinu og að hann muni jafnvel missa af Opna ástralska meistaramótinu í janúar.

„Ég vona að ég nái að spila í Ástralíu. Það er stærsta markmiðið mitt en ég er þó ekki viss um að ég nái því," sagði hann.

„Þetta er ekki eins og að handleggsbrotna því ég veit í raun ekki hvenær ég geti byrjað á ný. Ég fer vikulega í skoðanir og tek bara einn dag fyrir í einu."

„Það sem mestu máli skiptir er að jafna mig algjörlega. Ég vil vera 100 prósent heill þegar ég kem til baka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×