Viðskipti erlent

Minni ásókn í tveggja ára MBA-nám í bandarískum háskólum

Dregið hefur stórlega úr umsóknum í tveggja ára MBA-nám í Bandaríkjunum á undanförnum árum, og dró enn úr umsóknum fyrir haustönnina á þessu ári sem var að hefjast. MBA-námið er nám í viðskiptafræði og stjórnun á meistarastigi og hefur það notið mikilla vinsælda á heimsvísu undanfarin ár.

Greint er frá málinu í Wall Street Journal (WSJ) í dag, og er vitnað til nýrra talna frá Graduate Management Admission Council (GMAC), sem hefur annast hin svokölluðu GMA próf, sem nemendur þurfa oftar en ekki að klára með ákveðnum lágmarksárangri til þess að eiga möguleika á því að fá inni í skólum.

Í umfjöllun WSJ kemur m.a. fram að umsóknir um tveggja ára MBA-nám við Columbia háskólann í New York, einn virtasta háskóla heims, hafi verið 19 prósent færri á þessu ári en árið á undan, við Yale-háskóla hafi umsóknum fækkað um tæplega 10 prósent og við Dartmouth College Business School hafi umsóknum fækkað um tæplega 9 prósent.

Á móti hefur umsóknum um tveggja ára MBA-nám við UCLA fjölgað um 22 prósent milli ára og við Stanford University um 1,5 prósent.

Á heildina litið, byggt á gögnum GMAC, dregur hins vegar úr ásókn í tveggja ára MBA-námið, og er þetta fjórða árið í röð sem það gerist.

Sjá má umfjöllun WSJ um þessi mál, hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×