Körfubolti

18 ára strákarnir unnu Svartfjallaland - tveir sigrar í tveimur leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska 18 ára landsliðið.
Íslenska 18 ára landsliðið. Mynd/Fibaeurope.com
Íslenska 18 ára landsliðið í körfubolta byrjar vel í b-deild Evrópukeppni 18 ára landsliða sem stendur nú yfir í Bosníu. Íslenska liðið fylgdi á eftir sigri á Sviss í gær með því að vinna sannfærandi 12 stiga sigur á Svartfellingum í dag, 80-68.

KR-ingurinn Martin Hermannsson var stigahæstur eins og í fyrsta leiknum á móti Sviss en hann skoraði 19 stig í kvöld. Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson var með 15 stig. 5 fráköst og 7 stoðsendingar og þá var nýi Snæfellingurinn Stefán Karl Torfason með 13 stig og 6 fráköst. Valur Orri Valsson frá Keflavík var mjög öflugur og setti 11 stig og tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar en hann setti nokkur „stór" skot í leiknum.

Íslenska liðið var tveimur stigum yfir í hálfleik, 37-35, en munurinn var orðinn ellefu stig, 66-55, fyrir lokaleikhlutann þar sem sigurinn var aldrei í hættu. Einar Árni Jóhannsson, þjálfari íslenska liðsins, er greinilega að gera flotta hluti með strákana.

Ísland og Svíþjóð hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlinum en íslenska liðið mætir Noregi á morgun. Finnar eru einnig með í þessum riðli en þeir töpuðu fyrir Svartfjallalandi í fyrsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×