Sport

Serena vann Wimbledon-mótið í fimmta sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Serena fagnar eftir sigurinn í dag.
Serena fagnar eftir sigurinn í dag. Nordic Photos / Getty Images
Serena Williams vann sitt fyrsta stórmót í tvö ár þegar hún bar sigur úr býtum á Wimbledon-mótinu í tennis í dag eftir sigur á Agnieszku Radwönsku frá Póllandi í úrslitum. Þetta var hennar fimmti sigur í einliðaleik kvenna á Wimbledon-mótinu frá upphafi.

Williams, sem er þrítug, var að vinna sitt fjórtánda stórmót á ferlinum en það fyrsta eftir að hún var lengi frá vegna veikinda á síðasta ári.

Hún hefur átt ótrúlegan feril og hefur alls unnið 28 stórmótstitla í öllum flokkum - einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik. Er það meira en nokkur annar sem er enn að spila í dag.

Radwanska var að spila í fyrsta sinn til úrslita á stórmóti og hafði þar að auki verið að glíma við veikindi síðustu daga. Hún var langt frá sínu besta í upphafi viðureignarinnar og Serena vann fyrsta settið örugglega, 6-1.

En öllum að óvörum náði Radwanska að koma sér inn viðureignina á nú með því að vinna annað settið, 7-5, með glæsilegri spilamennsku.

Hún virtist hafa slegið Serenu af laginu en sú bandaríska sýndi hversu öflug hún er þegar mest á reyndi og vann að lokum öruggan sigur í þriðja settinu, 6-2, og þar með viðureignina 2-1.

Williams getur bætt öðrum titli í safnið í dag en hún mun þá keppa til úrslita í tvíliðaleik ásamt systur sinni, Venus Williams.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×