Sport

Murray réði ekki við tilfinningarnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andy Murray átti mjög erfitt með sig í viðtali við BBC eftir að hafa tapað úrslitaleiknum á Wimbledon-mótinu í tennis.

Murray tapaði fyrir Roger Federer sem var að vinna þennan titil í sjöunda sinn á ferlinum. Murray varð í dag fyrsti Bretinn til að keppa til úrslita í einliðaleik karla siðan 1938.

„Ég ætla að reyna þetta - það verður ekki auðvelt," sagði hann áður en hann brotnaði niður í viðtalinu. Honum tókst svo að óska Federer til hamingju og þakkaði svo bæði sínu fólki sem og áhofendunum sjálfum.

„Það tala allir um það hversu mikil pressa fylgir því að spila á Wimbledon. En það er ekki vegna áhorfendanna - það er þeim að þakka hveru sérstakt það er að spila hér," sagði hann svo.

Federer sagði svo sjálfur að Murray ætti allt gott skilið. „Andy mun vinna að minnsta kosti eitt stórmót," sagði hann. „Ég hef sjálfur saknað þess að spila í þessum úrslitaleik og það var frábært að fá að upplifa það aftur. Mér finnst að ég hafi náð mínu allra besta fram í síðustu viðureignum eftir misjafnt gengi síðustu ár. Þetta er því kærkominn sigur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×