Sport

Shvedova skráði sig í sögubækurnar á Wimbledon með gullsetti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Yaroslava Shvedova frá Kasakstan varð fyrsti tenniskappinn í sögu Wimbledon-mótsins til þess að vinna sett án þess að tapa stigi í dag.

Shvedova náði þessum merkilega áfanga í 6-0 og 6-3 sigri á Söru Errani frá Ítalíu í 3. umferð einliðaleiks kvenna í dag.

Shvedova vann öll stigin í fyrra settinu en um fáheyrða yfirburði er að ræða. Fjögur stig þarf til að vinna lotu þannig að í heildina vann Shvedova 24 stig í röð. Talað er um gullsett í þeim tilfellum en settið tók aðeins 15 mínútur.

Tíðindin voru ekki síður óvænt þar sem Sara Errani þótti sigurstranglegri í leiknum. Sú ítalska komst í úrslit á Opna franska mótinu á dögunum. Keppt er á leir í París en á grasvöllum á Wimbledon og hentar undirlagið keppendum misvel.

Aðeins einu sinni áður hafði það gerst á atvinnumannamóti að sett vannst án þess að stig tapaðist. Guardian greinir frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×