Íslenski boltinn

Fyrsti sigur Þróttara, töpuð stig Leiknis og stórsigur Ólsara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arnar Sveinn skoraði eitt marka Víkings Ólafsvíkur í dag.
Arnar Sveinn skoraði eitt marka Víkings Ólafsvíkur í dag.
Víkingur Ólafsvík skellti sér á topp 1. deildar karla með 4-0 sigri á BÍ/Bolungarvík á heimavelli í dag. Þróttarar unnu sinn fyrsta deildarsigur 2-1 gegn KA og Leiknir og Tindastóll skildu jöfn 1-1 í Breiðholti.

Ekki er víst að vera Ólsara á toppnum vari lengi því Höttur og Fjölnir eigast við sem stendur. Þeir geta í það minnsta fagnað flottum sigri á Djúpmönnum á Snæfellsnesi í dag.

Arnar Sveinn Geirsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks en í þeim síðari opnuðust flóðgáttirnar. Guðmundur Magnússon og Alfreð Már Hjaltalín skoruðu fyrir Ólsara auk þess sem eitt mark kom úr vítaspyrnu.

Eftir sigurinn eru Ólsarar komnir með 16 stig á toppi deildarinnar. Fjölnismenn hafa 15 stig en leikur þeirra gegn Hetti á Egilsstöðum stendur yfir.

Í Breiðholti stefndi allt í annan sigur Leiknis í deildinni í röð. Ólafur Hrannar Kristjánsson kom heimamönnum yfir seint í fyrri hálfleik. Í viðbótartíma fengu gestirnir frá Sauðárkróki vítaspyrnu sem Ben Everson skoraði úr.

Mikilvægt stig fyrir Stólana en heimamenn gráta vafalítið stigin töpuðu. Tindastóll er kominn með átta stig úr átta leikjum og situr í 9. sæti deildarinnar. Uppskera Leiknis er sjö stig og liðið enn í fallsæti.

Í Laugardal vann Þróttur sinn fyrsta sigur þegar KA-menn komu í heimsókn. Andri Gíslason kom heimamönnum yfir eftir stundarfjórðung en Davíð Rúnar Bjarnason jafnaði um miðjan síðari hálfleikinn.

Líkt og í bikarleiknum gegn Valsmönnum á dögunum var Karl Brynjar Björnsson hetja Laugdælinga. Miðvörðurinn skoraði sigurmarkið á 72. mínútu og bjartari tímar framundan hjá Þrótti.

Upplýsingar um markaskorara frá Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×