Sport

Venus úr leik við fyrstu hindrun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Venus Williams svekkt á velli 2 á Wimbledon í dag.
Venus Williams svekkt á velli 2 á Wimbledon í dag. Nordicphotos/AFP
Venus Williams heltist úr lestinni í einliðaleik kvenna á Wimbledon-mótinu sem hófst í London í dag. Williams tapaði í tveimur settum 6-1 og 6-3 gegn hinni rússnesku Elena Vesninu.

Williams byrjaði leikinnn illa og leikurinn stóð aðeins yfir í 75 mínútur. Aftur og aftur gerði Williams mistök undir lítilli pressu og þrátt fyrir dyggan stuðning áhorfenda var hún aldrei inni í leiknum. Williams er í uppáhaldi áhorfenda á Wimbledon en bandaríska konan hefur fimm sinnum unnið sigur á mótinu.

„Það er ekki möguleiki að ég leggi spaðann á hilluna vegna þess að illa hefur gengið á fyrstu fimm til sex mótunum síðan ég sneri aftur. Svoleiðis geri ég ekki," sagði Williams sem hefur glímt við Sjöbergs-heilkenni en lagt hart að sér að komast á völlinn á nýjan leik.

„Ég er hörð af mér, ég skal segja ykkur það, algjör nagli," sagði Williams sem féll úr umferð í annarri umerð á Opna franska mótinu á dögunum.

„Því miður hef ég þurft að kljást við óvenjulegar aðstæður í íþróttinni en ég læt það ekki draga mig niður, ég er klár í áskorunina," sagði Williams sem gerir ráð fyrir að mæta á Wimbledon að ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×