Rafael Nadal fagnaði sigri á Opna franska meistaramótinu í tennis í sjöunda sinn á ferlinum eftir sigur á Serbanum Novak Djokovic í úrslitaviðureigninni sem kláraðist í dag.
Enginn hefur unnið þetta mót oftar en Björn Borg frá Svíþjóð vann það sex sínum á ferlinum. Nadal er aðeins 26 ára gamall og líklegt að hann eigi eftir að bæta fleiri titlum í safnið á næstu árum.
Djokovic hafði unnið síðustu þrjú stórmót og hefði með sigri í dag jafnað árangur Ástralans Rod Laver sem er sá eini sem hefur verið handhafi allra fjögurra stórmótstitlanna samtímis.
Úrslitaleikurinn hófst í gær en fresta varð leik vegna rigningar. Nadal hafði þá unnið tvö sett gegn einu en var undir, 2-1, í fjórða settinu. Djokovic hafði þá verið á mikilli siglingu og hótað því að þvinga fram oddasett.
En Nadal vann uppgjöfina af Djokovic strax í fyrstu tilraun og fagnaði að lokum sigri í fjórða settinu, 7-5, og þar með viðureignina, 3-1.
Nadal hefur nú unnið ellefu stórmót á ferlinum en aðeins þrír menn hafa unnið fleiri - Roger Federer (16), Pete Sampras (14) og Roy Emerson (12).
Nadal í sögubækurnar | Stöðvaði Djokovic
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið

Ökklinn eins og IKEA húsgagn: „Boruðu gat í gegnum tvö bein“
Íslenski boltinn



Haaland flúði Manchester borg
Enski boltinn



Veðmál á leik á Íslandi vöktu miklar grunsemdir
Íslenski boltinn

„Skandall“ í gær en uppselt í dag
Fótbolti

