Gunnlaugur Jónsson fjárfestir segir nýja nálgun að fjármálakerfum vera lífsnauðsynlega svo að markaðir geti orðið skilvirkir, og virkni þeirra eðlileg. Þar sé langsamlega mikilvægast að afnema með öllu ríkisábyrgð á fjármálastarfsemi, þar ekki síst hlutverk seðlabanka við lán til þrautavara. Um þetta ásamt fleiru fjallar Gunnlaugur í bók sinni sem kom út fyrr á árinu, Ábyrgðarkver.
Gunnlaugur, sem er gestur nýjasta þáttar Klinksins, sem aðgengilegt er á viðskiptavef Vísis, segir ríkisábyrgðina vera „falskt" skjól fyrir fjárfesta og banka, sem brengli verðmyndun eigna á markaði. Þá segir hann það vera „kómískt" að sjá „nefnd snillinga" koma saman og ákvarða verðlagningu fjár í hagkerfinu, en þar vísar Gunnlaugur til Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og það hlutverk hennar að ákveða vexti.
Hann segist vel gera sér grein fyrir að miklar formbreytingar á fjármálakerfinu, í þá veru að afnema ríkisábyrð, verði ekki innleiddar nema á löngum tíma. Þróun mála á alþjóðavísu, þ.e. mikil skuldaaukning hins opinbera og efnahagsbólumyndun í hagkerfum, sé hins vegar mikið umhugsunarefni, og óhjákvæmilegt sé að kafa ofan í það hvort kerfislæg vandamál vegna ríkisábyrgðar séu fyrir hendi. Það sé hans skoðun að svo sé.
Í viðtalinu ræðir Gunnlaugur einnig um olíuleit í íslenskri lögsögu og tækifærin á þeim vettvangi, en Gunnlaugur er inn í tveimur hópum af þremur sem skiluðu inn umsókn um olíuleit á Drekasvæðinu.
Sjá má viðtalið við Gunnlaug í heild sinni hér.
