Körfubolti

Þrír sigrar á Norðurlandamóti yngri landsliða í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bríet Sif Hinriksdóttir í leik með U-16 liði kvenna í dag.
Bríet Sif Hinriksdóttir í leik með U-16 liði kvenna í dag. Mynd/KKÍ.is
Yngri landslið Íslands í körfubolta stóðu í ströngu á Norðurlandamótinu í körfubolta í Svíþjóð í dag.

Ísland sendi alls fjögur lið til keppni - U16 og U18 í karla- og kvennaflokki. Í gær spiluðu U18-liðin fyrstu leiki sína en öll liðin spiluðu í dag, þar af U16-liðin tvívegis hvort.

U18-lið karla vann í dag glæsilegan sigur á Svíum í framlengdum leik, 87-76, en strákarnir unnu stórsigur á Dönum í gær. Það er því nú þegar ljóst að Ísland mun spila til verðlauna í þessum aldursflokki en liðið mætir Noregi í fyrramálið.

Í U18-flokki kvenna töpuðu stelpurnar fyrir Svíþjóð í dag, 89-56. Þær töpuðu fyrsta leik sínum í gær, fyrir Finnum 76-54.

U16-lið Íslands í karlaflokki tapaði báðum sínum leikjum í dag. Fyrst gegn Noregi, 96-88, og svo gegn Finnum, 98-90. Báðir leikirnir voru jafnir og spennandi og því niðurstaðan svekkjandi fyrir strákana.

Stelpurnar í U16-landsliði Íslands fara hins vegar mjög vel af stað í sínum riðli og unnu báða sína leiki í dag. Fyrst fóru þar illa með Norðmenn og héldu andstæðingum sínum undir 30 stigum í leiknum.

Þær byrjuðu svo vel gegn Dönum sem þó gáfust ekki upp og hleyptu spennu í leikinn undir lokin. Íslensku stelpurnar stóðu þó áhlaupið af sér og unnu fjögurra stiga sigur, 71-67.

U16-lið kvenna hefur því tryggt sér rétt til að spila til verðlauna á mótinu, rétt eins og U-18 lið karla.

Nánari umfjöllun má finna á heimasíðu KKÍ.

Úrslit dagsins:

U-16 kk:

Ísland - Noregur 88-96

Ísland - Finnland 90-98

U-16 kvk:

Ísland - Noregur 62-29

Ísland - Danmörk 71-67

U-18 kk: Ísland - Svíþjóð 87-76 (frml)

U-18 kvk: Ísland - Svíþjóð 56-89




Fleiri fréttir

Sjá meira


×