Körfubolti

Benedikt bannaði leikmönnum Þórs að fylgjast með fjölmiðlum

„Við erum bara bara góðir. Við erum búnir að sýna það í vetur og í úrslitakeppninni að það er engin tilviljun að við erum á þessum stað. Ég sannfærður um að við getum orðið Íslandsmeistarar og ef einhver getur útskýrt það fyrir mér afhverju við gætum ekki orðið meistarar þá má hann hafa samband við mig.Við eigum 50% möguleika," sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs í gær eftir 83-80 sigur nýliða Þórs gegn Íslandsmeistaralið KR í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar.

Þórsarar leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins og þjálfarinn sigursæli er á því að það sé gott að eitthvað annað en farþegaskipið Herjólfur verði helsta kennileyti bæjarins.

„Eru þetta ekki ágætis skipti, losa sig við Herjólf og fá körfuna inn í staðinn. Það hefur verið mikill stemning hér í bænum í vetur og ég býst við að það verði 1000 manns á leikjunum það sem eftir er," sagði Benedikt en þess ber að geta að það búa rétt rúmlega 1.500 manns í Þorlákshöfn.

Í viðtalinu hér fyrir ofan segir þjálfarinn m.a. frá því að hann hefur bannað leikmönnum liðsins að fylgjast með fjölmiðlum á meðan úrslitakeppnin fer fram. „Ég bannaði þeim að lesa blöðin og fylgjast með fjölmiðlum. Það kitlar alltaf egóið hjá mönnum eftir sigurleiki að fara lesa hvað var skrifað um þá og liðið. Menn skrúfuðu bara fyrir slíkt og voru einbeittir fyrir leikinn gegn KR," sagði Benedikt.


Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Nýliðar Þórs slógu Íslandsmeistaralið KR út

Nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik eftir 83-80 sigur gegn Íslandsmeistaraliði KR í kvöld. Þetta var þriðji sigur Þórsara í einvíginu sem endaði 3-1. Þór leikur gegn Stjörnunni eða Grindavík í úrslitum en staðan í þeirri rimmu er 2-1 fyrir Grindavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×