Sport

Gunnar Nelson í beinni á Stöð 2 Sport

Kristján Hjálmarsson skrifar
Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson.
Stöð 2 Sport sýnir beint frá bardögum Gunnars Nelsonar og Árna Ísakssonar sem verða meðal keppenda í Cage Contender XII sem fram fer í Dublin á Írlandi þann 25. febrúar.

Gunnar Nelson mun mæta Alexander "Iron Capture" Butenko frá Úkraínu en hann er gríðarlega öflugur bardagamaður og hefur unnið tólf af sextán bardögum, þar af tíu af síðustu ellefu.

Butenko er talin ein skærasta vonarstjarnan austantjaldsþjóða í veltivigt í MMA en hann var í 9. sæti á sameiginlegum MMA styrkleikalista Rússa, Hvít-Rússa og Úkraínumanna í veltivigt í fyrra.

Þetta verður tíundi bardagi Gunnars Nelson í MMA en hann er ósigraður hingað til í sportinu með 8 sigra og eitt jafntefli sem kom í hans fyrsta bardaga. Bardagi Gunnars og Butenko verður aðalbardagi Cage Contender í Dublin.

Gunnar verður þó ekki eini Íslendingur sem keppir þar því Árni "úr járni" Ísaksson verður einnig meðal keppenda. Árni á 15 bardaga að baki í MMA en hann hefur unnið 11 og tapað 4.

Árni mætir Rich "Souza" Gorey frá Norður-Írlandi. Sá hefur keppt fim sinnum í MMA og aðeins einu sinni þurft að lúta í lægra haldi.

Gunnar og Árni hafa verið við stífar æfingar að undanförnu, fyrst með keppnisliði bardagafélagsins Mjölnis en nú á Írlandi undir stjórn John Kavanagh.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×