Körfubolti

Bikarúrslit KKÍ karla | Bárður og Sigurður

Tindastóll og Keflavík eigast við í úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik á morgun, Poweradebikarnum. Þetta er í fyrsta sinn sem Tindastóll frá Sauðárkróki kemst alla leið í úrslit en Keflvíkingar hafa 5 sinnum hampað titlinum. Hans Steinar Bjarnason ræddi við Bárð Eyþórsson þjálfara Tindastóls og Sigurð Ingimundarson þjálfara Keflavíkur.

„Stemningin í bænum er mjög góð og allstaðar þar sem maður kemur er rætt um leikinn. Stuðningsmenn Tindastóls hafa stutt vel við bakið á okkur á heimaleikjum í vetur og það verður það sama uppi á teningnum í þessum leik," segir Bárður en Tindastóll er í fyrsta sinn í úrslitum bikarkeppni KKÍ. Bárður tók við þjálfun Tindastóls í lok október eftir skelfilega byrjun liðsins á tímabilinu. Liðið hefur náð að snúa við blaðinu og er nú eini skrefi frá bikarmeistaratitlinum.

Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur hefur margoft upplifað bikarúrslitaleiki með liði sínu en það er ansi langt síðan að Keflavík fór með bikarinn heim á Reykjanesið. Keflavík hefur ekki unnið bikarinn frá árinu 2004. „Þetta eru tvö góð lið sem hafa spilað það vel að þau eru komin í úrslitaleikinn. Það eru helmingslíkur á því að við sigrum," sagði Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×