Sport

Djokovic vann Murray í maraþonviðureign

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Djokovic fagnar sigri sínum í dag.
Djokovic fagnar sigri sínum í dag. Nordic Photos / Getty Images
Það tók Novak Djokovic tæpar fimm klukkustundir að bera sigur úr býtum gegn Skotanum Andy Murray á undanúrslitum Opna ástralska meistaramótsins í dag.

„Þetta er einhver besta viðureign sem ég hef spilað á ferlinum," sagði Djokovic sem hafði betur í fimm settum, 6-3, 3-6, 6-7, 6-1 og 7-5.

Djokovic byrjaði miklu betur í dag og vann fyrsta settið örugglega, 6-3. Hann komst svo í 2-0 í næsta setti en þá vaknaði Murray skyndlega til lífsins og rúllaði yfir Djokovic með því að vinna sex af næstu sjö lotum og þar með settið, 6-3.

Þriðja settið var æsispennandi og þurfti upphækkun til að útkljá það. Þar hafði Murray betur eftir mikla baráttu, 7-4, og fagnaði hann ógurlega.

En Serbinn öflugi neitaði að gefast upp. Hann vann næsta sett örugglega, 6-1, og komst svo í 5-2 forystu í oddasettinu. En Murray virtist líka algerlega ódrepandi - hann vann næstu þrjár loturnar og jafnaði metin, 5-5.

En Djokovic reyndist sterkari á lokasprettinum. Hann vann næstu tvær lotur og tryggði sér þar með sæti í úrslitunum gegn Rafael Nadal.

Þessir kappar mættust í úrslitunum í Ástralíu í fyrra og þá hafði Djokovic yfirburðasigur. Murray sýndi í dag að hann ætlar sér að blanda sér af alvöru í titilbarátuna á stórmótum en hann er enn að bíða eftir sínum fyrsta titli.

„Þetta reyndi mikið á enda tók þetat um fimm tíma. Andy á skilið hrós fyrir að koma til baka. Hann barðist mikið og það gerði ég líka," sagði Djokovic, efsti maður heimslistans. Murray er í fjórða sæti.

Úrslitaviðureignin fer fram á sunnudagsmorgun klukkan 8.30 og verður í beinni útsendingu á Eurosport. Í nótt eigast við Maria Sharapova og Victoria Azarenka í úrslitum einliðaleiks kvenna.


Tengdar fréttir

Sharapova og Azarenka mætast í úrslitum

Þær Maria Sharapova og Victoria Azarenka komu nokkuð á óvart með því að sigra andstæðinga sína í undanúrslitum Opna ástralska meistaramótsins í tennis.

Serena Williams úr leik í Ástralíu

Óvænt úrslit urðu á Opna ástralska mótinu í tennis í nótt þegar Serena Williams beið lægri hlut gegn Ekaterinu Makarovu frá Rússlandi í tveimur settum, 6-2 og 6-3.

Nadal áfram eftir hörkuslag | Wozniacki úr leik

Fyrri helming fjórðungsúrslitanna í einliðaleik karla og kvenna á Opna ástralska meistaramótsins er lokið. Roger Federer og Rafael Nadal komust báðir áfram en Caroline Wozniacki, efsta kona heims á heimslistanum, er úr leik.

Nadal sló út Federer í undanúrslitum

Rafael Nadal er kominn í úrslitin á Opna ástralska meistaramótinu í tennis eftir sigur á Roger Federer í hreint magnaðri undanúrslitaviðureign.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×