Sport

Azarenka vann sitt fyrsta stórmót | Komst í efsta sæti heimslistans

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Victoria Azarenka.
Victoria Azarenka. Nordic Photos / Getty Images
Hvít-Rússinn Victoria Azarenka bar í dag sigur úr býtum á Opna ástralska meistaramótinu í tennis eftir sannfærandi sigur á Mariu Sharapovu frá Rússlandi í úrslitum, 6-3 og 6-0.

Þetta er í fyrsta sinn sem Azarenka, sem er 22 ára gömul, kemst í úrslit á stórmóti og hafði hún sigur í fyrstu tilraun. Fyrir mótið var hún í þriðja sæti heimslistans og aldrei komist hærra. En með þessum sigri er ljóst að hún mun stökkva upp í efsta sæti þegar nýr listi verður gefinn út eftir helgi.

Hún er vel að sigrinum komin en hún sló út Belgann Kim Clijsters í undanúrslitum í hörkuviðureign og var svo einfaldlega mun sterkari aðilinn gegn Sharapovu í morgun.

Azarenka er vitanlega þjóðhetja í heimalandi sínu en engin tenniskona frá Hvíta-Rússlandi hefur áður náð jafn langt og hún. Hún komst í undanúrslit á Wimbledon-mótinu í fyrra en tapaði þá fyrir Petru Kvitova frá Tékklandi sem vann svo mótið. Sharapova sló Kvitovu úr leik í undanúrslitunum í Ástralíu.

Azarenka virkaði taugaóstyrk í byrjun og Sharapova komst í 2-0 forystu í fyrsta setti. En Azarenka náði að hrista það fljótt af sér og vinna fyrsta settið örugglega, 6-3.

Í öðru setti náði Sharapova sér aldrei á strik og tapaði 6-0. Azarenka steig ekki feilspor, kláraði viðureignina með ótrúlegum yfirburðum og fagnaði vel og innilega í leikslok. Þegar uppi var staðið hafði Azarenka unnið tólf af þrettán síðustu lotum viðureignarinnar.

Þetta eru vitanlega mikil vonbrigði fyrir Sharapovu sem vann þetta mót árið 2008. Það var hennar þriðji stórmótstitill og er hún enn að bíða eftir þeim fjórða.

Síðan þá hefur hún þó mátt glíma við meiðsli og ýmis konar mótlæti. Þrátt fyrir tapið í dag er hún um þetta leyti nálægt sínu besta og til alls líkleg á keppnisárinu sem er fram undan.


Tengdar fréttir

Sharapova og Azarenka mætast í úrslitum

Þær Maria Sharapova og Victoria Azarenka komu nokkuð á óvart með því að sigra andstæðinga sína í undanúrslitum Opna ástralska meistaramótsins í tennis.

Djokovic vann Murray í maraþonviðureign

Það tók Novak Djokovic tæpar fimm klukkustundir að bera sigur úr býtum gegn Skotanum Andy Murray á undanúrslitum Opna ástralska meistaramótsins í dag.

Nadal áfram eftir hörkuslag | Wozniacki úr leik

Fyrri helming fjórðungsúrslitanna í einliðaleik karla og kvenna á Opna ástralska meistaramótsins er lokið. Roger Federer og Rafael Nadal komust báðir áfram en Caroline Wozniacki, efsta kona heims á heimslistanum, er úr leik.

Nadal sló út Federer í undanúrslitum

Rafael Nadal er kominn í úrslitin á Opna ástralska meistaramótinu í tennis eftir sigur á Roger Federer í hreint magnaðri undanúrslitaviðureign.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×