Skoðun

Um lífeyri og langtíma viðmið

Gylfi Arnbjörnsson skrifar
Undanfarið hefur mikið verið fjallað um það viðmið um raunávöxtun, sem notuð er í lífeyriskerfinu til að ákvarða framtíðar lífeyrisréttindi og núvirða framtíðartekjur og -gjöld sjóðanna. Umræða um lífeyrismál er mikilvæg, en því miður byggir þessi umfjöllun á misskilningi á nokkrum grundvallaratriðum sem leiðir til þess að einblínt er á ranga þætti í þróun fjármálamarkaðar og lífeyriskerfis.

Í fyrsta lagi er rétt að árétta að það eru engin lög sem kveða á um lágmarksvexti hjá lífeyrissjóðunum. Eftir að gjaldeyrishöftin voru sett á hefur ávöxtunarkrafa lækkað verulega. Raunvextir íbúðabréfa eru nú komnir vel niður fyrir 3% og raunvextir innistæðna eru neikvæðir. Samt sem áður eru lífeyrissjóðirnir á þessum markaði og hafa ekki brotið nein lög. Eina ákvæði laganna er að lífeyrissjóðum ber að ávaxta fé sjóðsfélaga með sem bestum hætti m.t.t. ávöxtunar og áhættu á hverjum tíma.

Í öðru lagi verður að hafa það í huga að umrætt viðmið er hugsað sem langtímaávöxtun eigna sjóðanna. Hver einstaklingur hefur samskipti við sinn lífeyrissjóð í allt að 65-70 ár.

Viðmiðið við útreikning réttinda þessa einstaklings gerir ráð fyrir að sjóðnum takist að ná 3,5% raunávöxtun á iðgjöld hans að meðaltali allt þetta tímabil. Því ber að fara varlega í breytingar á þessu viðmiði, því þær hafa mikil áhrif á réttindi sjóðsfélaga. Hækkun eða lækkun þessa viðmiðs um 0,5% jafngildir 10-12% hækkun eða lækkun iðgjalda eða lífeyrisréttinda. Í Bandaríkjunum er algengasta viðmiðunin t.d. 4,5% og víða í Evrópu er miðað við 3-4% þannig að íslenska lífeyriskerfið sker sig ekkert úr hvað þetta varðar.

Í þriðja lagi hefur í umræðunni verið vitnað til kenningar um að raunvextir geti ekki verið hærri en hagvöxtur. Fyrir utan hvað þessi kenning hvílir á veikum grunni, einkum ef litið er til þróunar vestrænna hagkerfa, lítur hún framhjá þeirri staðreynd að mun fleiri þættir hafa áhrif á raunávöxtun einstakra eignarflokka en hagvöxtur. Sérstaklega á þetta við um ávöxtun hlutabréfa og víkjandi lána með ívilnunum. Lífeyrissjóðirnir eru þátttakendur á alþjóðlegum fjármálamarkaði og geta nýtt sér ávöxtunartækifæri víðar en hér og í fleiri eignarflokkum en hingað til hefur verið gert, þó þessir kostir séu nú takmarkaðir með gjaldeyrishöftunum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×