Nettóþyngd Kötlu púðursykurs og glassúrs frá Kötlu eru undir leyfilegum mörkum sé miðað við merkingar á vörunum. Glassúrinn er að meðaltali um 30 prósentum undir nettóþyngd, vegur að meðaltali um 103 grömm, en samkvæmt pakkningu á varan að vega 150 grömm. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar Neytendastofu á þyngd sex vörutegunda sem notaðar eru í bakstur.
Hver einasta pakkning af Kötlu glassúr reyndist léttari en leyfilegt er. Kötlu púðursykurinn er merktur 500 g en um helmingur pokanna var meira en tveimur prósentum undir og meðalþyngdin reyndist líka minni en leyfilegt er.
Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Kötlu, segir ástæðuna vera mistök í merkingum. Flaskan af glassúr taki einungis 100 millilítra og því geti varan ekki vegið 150 grömm eins og standi á miðanum.
„Þegar við uppgötvuðum þetta var jólaösin skollin á og ekkert hægt að gera,“ segir Björn. Varðandi púðursykurinn segir Björn honum vera pakkað í vélum og sýni séu tekin reglulega, en málið verði skoðað.
Neytendastofa kannaði einnig Síríus Konsum súkkulaði frá Nóa Síríus, Frón pipardropa frá Íslensk-Ameríska, Matarsóda frá Pottagöldrum og gróft kókosmjöl merkt Hagveri frá Góðu fæði.
- sv
