Partýbær
HAM er besta rokkhljómsveit Íslandssögunnar. Ég er stoltur félagi í þeirra söfnuði. Ég hef hvorki fyrr né síðar heyrt rokk keyrt svona áfram beint inn í eyrað á mér, gegnum magann og inn í hjartað. Ókei, kannski klisja að setja þetta lag í fyrsta sæti. En prófaðu að setja þetta á fóninn í hvaða klúbbi sem er og sjáðu liðið bilast. Eitt besta „riff" rokksögunnar.
Musculus
Af því að þetta var fyrsta lagið á fyrstu tónleikunum sem ég fór á með þeim í kjallara Keisarans við Hlemm árið 1990, síðar Moulin Rouge. Ég frelsaðist á staðnum. Ég á eiginlega engar rokkplötur í mínu stóra plötusafni. Nú á ég samt allt með HAM, líka sjaldgæfu upptökurnar sem þeir hafa reddað mér persónulega.
Marinering
Einnig þekkt sem „Birth of a Marination". Ég hafði aldrei áður heyrt rokk sem ég gat dansað við, þökk sé Adda trommara og Blöndal bassaleikara.

Af nýja stöffinu stendur Ingimar keikur upp úr. Þakka almættinu að HAM gat farið að starfa aftur.
Hold
Eru þið eitthvað að djóka í mér með „grúvið" í þessu lagi? HAM höfðar til hommans og húmoristans í mér á sama tíma. Lagið Hold fær sko homma til að „headbanga".