Tuttugu ár eru liðin síðan íslenska briddslandsliðið sigraði á heimsmeistaramótinu í Yokohama og hlaut hina frægu Bermúdaskál að launum. Ísland hefur ekki tryggt sér þátttökurétt í lokakeppni heimsmeistaramóts í sveitakeppni í bridds aftur fyrr en nú. Keppnin hefst í Veldhoven í Hollandi á laugardag.
Í viðtali við Fréttablaðið nýlega rifjaði Björn Eysteinsson, fyrirliði sigurliðsins, það upp hversu mikla athygli árangur liðsins fékk. Sýnt var frá lokaviðureigninni við Pólverja í beinni útsendingu og sátu allir sem vettlingi gátu valdið við viðtækin. Það var mögulegt vegna þess Helgi Jóhannsson, þáverandi forseti Briddssambandsins, náði að sannfæra stjórn Alheimsbriddssambandsins um þörfina á slíkri útsendingu vegna þess að þjóðin öll fylgdist með. Heimkoma meistaranna vakti gríðarlega athygli og ekki síst fyrir að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, lét menn lyfta glösum í frægri „Bermúdaskál".
Í tilefni tímamótanna verður afmæliskaffi og fyrirlestur í húsakynnum Bridgesambands Íslands klukkan sex í dag.- shá

