Tíska og hönnun

Frelsi til að fara eigin leiðir

Íris Eggertsdóttir myndlistarkona hefur fært sig út í saumaskap og hannar nú flíkur undir nafninu Líber, sem þýðir frelsi.
Íris Eggertsdóttir myndlistarkona hefur fært sig út í saumaskap og hannar nú flíkur undir nafninu Líber, sem þýðir frelsi. Fréttablaðið/Anton
Íris Eggertsdóttir myndlistarkona hefur hannað fatnað í rúmt ár undir nafninu Líber og hafa flíkurnar fallið vel í kramið hjá íslenskum konum.

„Mamma er klæðskeri og ég hef því verið viðloðandi saumaskap alveg frá því ég man eftir mér. Ég ákvað þó að feta ekki í fótspor mömmu og fór í myndlistarnám og er því myndlistarmaður og starfa við það í dag,“ útskýrir Íris. Hún segist vinna mikið með form og liti þegar hún hannar og tvinnar þannig saman saumaskapinn og myndlistina.

Íris reynir að sinna myndlistinni til jafns við hönnunina en viðurkennir að undanfarið ár hafi meiri tími farið í saumaskapinn. „Ég hef gefið hönnuninni aðeins meiri tíma undanfarið. Það fer oftast bara eftir skapi eða flæðinu hvað ég gríp í þann daginn. Ég hef mjög gaman af þessu og draumurinn er að ég geti haft lifibrauð mitt af þessu í framtíðinni. Nafnið Líber þýðir frelsi og tengist því að ég vilji fá að gera mitt og ekki elta sérstaka tísku eða stefnu.“

Íris er með opið á vinnustofu sinni við Hverfisgötu 50 alla fimmtudaga og föstudaga á milli 11.00 og 18.00. „Fyrst var ég með opið frá klukkan tíu á morgnana en þá eru fæstir komnir á fætur þannig ég ákvað að seinka opnunartímanum um klukkustund,“ segir hún glaðlega að lokum. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×