Strætó bs. skilaði 8,4 milljóna króna hagnaði á fyrri helmingi þessa árs. Það er betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir, en verri en á síðasta ári þegar hún var jákvæð um 79 milljónir króna á fyrri hluta ársins. Eigið fé félagsins hefur aukist um 83 milljónir frá síðustu áramótum, en þá var það jákvætt í fyrsta skipti frá árinu 2004.
Athygli vekur að eitt af því sem jók kostnað fyrirtækisins var fjölgun farþega. Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir í fréttatilkynningu að það muni sennilega hafa neikvæð áhrif á afkomu Strætó við núverandi aðstæður. „Þrátt fyrir allt má þó vel við una.“
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að þetta skýrist af því hve hlutdeild fargjalda í útgjöldum fyrirtækisins hafi farið hratt lækkandi á undanförnum árum. Það hafi á engan hátt haldið í við eldsneytisverð.
Unnið er að rekstrar- og stjórnsýsluúttekt á öllum byggðasamlögum sem Reykjavíkurborg á hlutdeild í og segir Dagur að stjórnsýsluúttektinni muni ljúka snemma í haust. Strætó er eitt þeirra byggðasamlaga.
Dagur segir að stóra verkefnið varðandi Strætó liggi í því að finna út hvernig hlutur almenningssamgangna verði gerður sem mestur. - kóp
Fleiri farþegar þýða aukinn kostnað
