Skoðun

Góða umferðarhelgi!

Kjartan Magnússon skrifar

Við upphaf mestu umferðarhelgar ársins er ekki úr vegi að ökumenn hugleiði helstu orsakir alvarlegra umferðarslysa áður en lagt er út á þjóðvegi landsins. Hver og einn getur síðan metið með sjálfum sér hvort hann þurfi að breyta aksturslagi sínu. Rannsóknir sýna að helst má rekja banaslys og önnur alvarleg slys til eftirfarandi þátta:

  • Hraðakstur.
  • Bílbelti ekki notuð.
  • Ölvunarakstur.
  • Svefn og þreyta.
  • Reynsluleysi ökumanns.
  • Forgangur ekki virtur.
  • Vegur og umhverfi.

Af þessari upptalningu sést að orsakir banaslysa má oftast rekja til áhættuhegðunar ökumanns eða mannlegra mistaka hans. Stöðugt er unnið að því að gera bílana sjálfa öruggari sem og vegina og umhverfi þeirra. Þau tilvik eru hins vegar sorglega mörg þar sem fólk kastast út úr ökutækjum og bíður bana eða stórslasast vegna höfuðáverka, sem hljótast af harðri lendingu við jörð eða þegar ökutækið veltur yfir það. Oft þolir sjálfur bíllinn áreksturinn en fólk í honum stórslasast eða lætur lífið þar sem bílbelti voru ekki spennt.

Möl og malbikEkki verður nægilega brýnt fyrir vegfarendum að sýna sérstaka varúð þegar ekið er eftir hinum íslensku malarvegum, einkum þegar komið er inn á slíka vegi af malbiki eða bundnu slitlagi. Þar er einnig mikilvægara en ella að hægt sé á bifreiðum þegar þær mætast vegna grjótkasts og rykmengunar.

Gagnkvæm tillitsemiAf sömu ástæðu er mjög mikilvægt að menn hægi verulega á bílum sínum þegar ekið er fram hjá gangandi eða hjólandi vegfarendum á malarvegum. Því miður hefur verið kvartað yfir því að undanförnu að misbrestur sé á því að ökumenn geri það.



Um leið og öllum landsmönnum er óskað góðrar umferðarhelgar, skal minnt á gamalt spakmæli Skallagríms Kveldúlfssonar, sem enn er í fullu gildi: „Gott er heilum vagni heim að aka.“




Skoðun

Sjá meira


×