Lánshæfiseinkunnir Íslands gætu batnað í framhaldi af orðum Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands nýlega þar sem forsetinn gaf í skyn að hann myndi að öllum líkindum samþykkja frumvarp um nýjasta Icesave-samninginn.
Þannig hefst frétt á Bloomberg fréttaveitunni. Þar er haft eftir Kathrin Muelhbronner greinenda hjá Moody´s í London að það væri að sjálfsögðu jákvætt fyrir lánshæfi Íslands ef að samkomulag næðist í Icesavedeilunni og að það samkomulag fæli í sér mun betri kjör en síðasta samkomulag kvað á um.
Sem stendur er lánshæfiseinkunn Íslands hjá Moody´s og Standard & Poor´s aðeins einu haki fyrir ofan ruslflokk og með neikvæðum horfum. Fitch Ratings setti lánshæfiseinkunina í ruslflokk á síðasta ári í framhaldi af því að forsetinn vísaði síðasta Icesave-samkomulagi til þjóðaratkvæðis.
Eileen Zang greinandi hjá Standard & Poor´s í London segir að nýtt samkomulag myndi gera stöðuna skýrari og afnema einn af áhættuþáttunum í efnahagsmálum Íslands.
Paul Rawkins einn af forstjórum Fitch Ratings segir að endurskoðað lánshæfi Íslands muni liggja fyrir á næstu mánuðum. Það muni fela í sér mat á áhrifum af nýju samkomulagi.