Fótbolti

Eigandi Hoffenheim útilokar ekki að ræða söluna á Ba

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Dietmar Hopp, eigandi þýska úrvalsdeildarfélagsins Hoffenheim, útilokar ekki að félagið þurfi nú að takast á við mögulega sölu á framherjanum Demba Ba.

Ba hefur neitað að æfa með Hoffenheim síðustu daga þar sem hann þráir ekkert heitar en að komast í ensku úrvalsdeildina. west Ham hefur mikinn áhuga á kappanum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ba fer í verkfall en það gerði hann einnig þegar Stuttgart vildi fá hann.

„Það er án efa til gagns að ræða möguleg félagaskipti leikmannsins," sagði Hopp við þýska fjölmiðla. „Þetta er í annað skiptið sem hann beitir slíkum brögðum og hann sýndi strax um jólin merki þess að hann myndi feta þessa leið."

„Mér er þó til efs að hann komist til nýs félag undir þessum kringumstæðum."

Ernst Tanner, framkvæmdarstjóri Hoffenheim, efast um að Ba eigi sér framtíð hjá félaginu.

„Ég sé ekki fyrir mér að Ba muni aftur klæðast treyju félagsins. Ég mun án nokkurs vafa setja mig í samband við FIFA út af þessu máli."

„Ef við kjósum að leyfa honum ekki að spila með öðru félagi liggur nokkuð ljóst fyrir að hann muni ekki spila mikið á næstunni."

Gylfi Þór Sigurðsson er á mála hjá Hoffenheim og er markahæsti leikmaður liðsins í þýsku úrvalsdeildinni ásamt Ba. Báðir hafa skorað sex deildarmörk til þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×