Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR náði óvænt bara þriðja sæti í einni upphaldsgreininni sinni á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug sem nú stendur yfir í Laugardalslauginni. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH varð Íslandsmeistari í sundinu.
Ingibjörg Kristín synti 100 metra skriðsundið á 56,06 sekúndum eða rúmri sekúndu hraðar en hún gerði í undanrásnunum en Bryndís Rún Hansen varð síðan í öðru sæti á 56,82 sekúndum. Ragnheiður varð þriðja á 57,83 sekúndum en hún synti á 54,89 sekúndum í undanrásunum og Íslandsmetið hennar er 54,44 sekúndur.
Ragnheiður hafði reyndar skömmu áður tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í 100 metra fjórsundi þar sem hún jafnaði Íslandsmetið sem hún setti í undanrásunum í gær. Ragnhieður synti 100 metra fjórsundið á 1:01.72 mínútum en í öðru sæti varð Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi á 1:02.00 mínútum.
