Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik tapaði með fjórum mörkum gegn Pólverjum á æfingamóti í Póllandi í kvöld. Lokatölurnar urðu 26-22 heimakonum í vil sem voru vel studdar af 1.500 áhorfendum. Þetta kemur fram á mbl.is í kvöld.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir og Stella Sigurðardóttir voru markahæstar í íslenska liðinu með fjögur mörk. Guðný Jenný Ásmundsdóttir varði 16 skot í íslenska markinu.
Íslenska liðið beið lægri hlut gegn Hollendingum í fyrsta leik sínum á mótinu í gær 23-29. Liðið mætir Tékkum í lokaleik sínum í riðlinum í fyrramálið.
