Íslenski boltinn

Aftur unnu strákarnir með Eyjólf í stúkunni - myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska 21 árs landsliðið hóf undankeppni EM 2013 með góðum sigri á Belgíu á Hlíðarenda í gær en Eyjólfur Sverrisson þjálfari íslenska liðsins var í leikbanni og sat í stúkunni á Vodafone-vellinum.

Eyjólfur tók út leikbann þar sem að hann fékk rautt spjald í lokaleik íslenska liðsins á úrslitakeppni EM í Danmörku fyrr í sumar. Staðan var 0-0 þegar Eyjólfur var rekinn upp í stúku á 52. mínútu á móti Dönum en íslensku strákarnir unnu leikinn síðan 3-1.

Tómas Ingi Tómasson stýrði íslenska liðinu síðustu 38 mínúturnar á móti Dönum og hann var líka við stjórnvölinn á móti Belgum í gær.

Björn Bergmann Sigurðarson var maðurinn á bak við sigur íslenska liðsins því hann skoraði bæði mörkin í leiknum.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á leiknum í Vodafonevellinum í gærkvöldi og náði þessum skemmtilegu myndum. Myndirnar má sjá í albúminu hér að neðan. Hægt er að sjá myndirnar stærri með því að smella á þær.





Mynd/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×