Íslenski boltinn

Lars Olsen lítur til Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Olsen hefur áhuga á íslenska landsliðsþjálfarstarfinu.
Lars Olsen hefur áhuga á íslenska landsliðsþjálfarstarfinu. Nordic Photos / Getty Images
Lars Olsen, fyrrum fyrirliði danska landliðsins, segist hafa áhuga á að taka við íslenska landsliðinu. Hann hafi þó ekkert heyrt frá forráðamönnum KSÍ.

Olsen lék sem miðvörður á sínum tíma og var fyrirliði Dana þegar liðið varð Evrópumeistari árið 1992. Alls á hann að baki 84 leiki með danska landsliðinu.

Hann lék með félagsliðum í heimalandinu, Belgíu og Tyrklandi áður en hann lagði skóna á hilluna árið 1996. Síðan þá hefur hann byggt upp öflugan þjálfaraferil en síðast var hann þjálfari OB í dönsku úrvalsdeildinni.

„Undanfarið ár hef ég rætt við mörg félög og marga umboðsmenn. Ferilsskráin mín hefur því farið víða og er nú komin til Íslands. Ég hef þó ekki rætt við neinn hjá íslenska knattspyrnusambandinu enn sem komið er," sagði Olsen í samtali við tipsbladet.dk.

Olsen segir starfið spennandi og að hann hafi áhuga á að freista gæfunnar erlendis. „Auðvitað finnst mér starf landsliðsþjálfara á Íslandi afar áhugavert og það hef ég alltaf sagt. Ég er spenntur fyrir því að prófa eitthvað nýtt erlendis og þetta gæti verið gott tækifæri til þess," er haft eftir Olsen.

Hann segir þó vera með fleiri járn í eldinum og að hann hafi þegar hafnað nokkrum atvinnutilboðum. „Það er ýmislegt í gangi núna sem ég get ekki tjáð mig um," sagði Olsen.

Svíinn Lars Lagerbäck lýsti yfir áhuga á starfinu í samtali við Fréttablaðið í dag og þá hefur Írinn Roy Keane einnig verið orðaður við starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×