Íslenski boltinn

Guðjón Þórðarson: KR-ingar kláruðu þetta vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Mynd/Daníel
Bikarævintýri Guðjóns Þórðarsonar og lærisveina hans í BÍ/Bolungarvík lauk í kvöld þegar liðið tapaði 1-4 á heimavelli á móti KR í undanúrslitum Valitorsbikarsins á Ísafirði í kvöld. Guðjón fór samt ótrúlega langt með liðið sitt sem er á sínu fyrsta ári í B-deildinni. KR-ingar tryggðu sér sæti í bikarúrslitaleiknum með því að skora þrjú mörk á síðustu tíu mínútunum.

„Það var einbeitingarskortur sem var þess valdandi að við fáum á okkur þessi mörk í lokin. Það var vitað mál að það yrði erfitt ef við fengjum á okkur annað mark. Ég fór í framhaldinu að huga að skiptingum til að setja inn á fleiri sóknarmenn. Á meðan ég var að undirbúa skiptinguna þá fengum við á okkur þriðja markið. Þetta gerðist það hratt að það var voðalega erfitt að ráða við þetta," sagði Guðjón Þórðarson, þjálfari BÍ/Bolungarvíkur í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í útsendingu Stöðvar 2 Sport frá leiknum.

„KR-ingar eru með gott lið og ég vissi það fyrirfram að ef að þeir fengju að finna lyktina þá myndu þeir renna á það. Þeir gerðu það, kláruðu þetta vel og betri liðið vann í dag," sagði Guðjón.

„Það lá mikið á okkur í seinni hálfleik en samt sköpuðu þeir sér ekki mikið af færum. Það var ekki mikið af svæðum á bak við vörnina hjá okkur og ég vissi að þetta yrði erfitt fyrir þá," sagði Guðjón.

„Það sem vantaði upp á hjá mér var að bestu leikmennirnir mínir voru ekki á parinu sínu í dag. Það er alveg ljóst að KR-liðið, er það vel skipulagt og vel skipað, að það má engu muna. Ef að þú átt ekki alveg topp topp dag út um allan völl þá á mitt lið ekki möguleika í KR. Það gerðist þarna á örfáum mínútum og þeir kláruðu þetta vel," sagði Guðjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×