Íslenski boltinn

Rúnar: Förum ekki áfram í þessari keppni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar Kristinsson þjálfari KR var skiljanlega svekktur eftir 4-1 tap á heimavelli gegn Dinamo Tbilisi í undankeppni Evrópudeildar í kvöld. KR-ingar fengu fín færi í leiknum sem nýttust ekki.

„Já, þetta er að mínu mati alltof stórt tap. Þeir refsa grimmilega, fóru hratt fram á okkur og skoruðu fín mörk. Miðað við færin sem við fengum í þessum leik eru úrslitin ekki að gefa rétta mynd af leiknum," sagði Rúnar.

KR-ingar fjölmenntu nokkrum sinnum á síðasta þriðjung vallarins en fengu hraðar skyndisóknir í bakið sem erfitt var að verjast. Menn voru seinir tilbaka og það kostaði mörk.

„Já, sérstaklega í fyrsta markinu. Þar fannst okkur leikmaðurinn spila boltanum tilbaka á markmanninn. Dómarinn dæmdi ekkert og leikmennirnir voru óánægðir með það og voru að svekkja sig. Á sama tíma grýtti markvörðurinn boltanum fram og lenda fjórir á þrjá og jafna leikinn. Það var vendipunktur í þessu. Svo fannst mér við falla og langt tilbaka. Við ætluðum að setja meiri pressu á varnarmennina þeirra því þeim gekk illa að spila boltanum. En frá miðsvæðinu upp í fremstu menn voru þeir flinkir og fljótir og við lentum í mesta basli með henni.

Möguleikinn í síðari leiknum er lítill og Rúnar er meðvitaður um það.

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum ekki að fara áfram í þessari keppni. Við viljum samt spila almennilegan leik á útivelli og vera KR til sóma. Á sama tíma þurfum við að hvíla einhverja leikmenn og gefa öðrum leikmönnum tækifæri á að spila. Leikmönnum sem þurfa leikæfingu að halda og fá möguleikann. Við munum nýta þennan leik í það," sagði Rúnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×