Íslenski boltinn

Gunnar: Höfum ekki fengið heimaleik í nokkur ár

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Borgþórsson þjálfari kvennaliðs Vals var nokkuð sáttur við dráttinn en lið hans sækir Aftureldingu heim í undanúrslitum Valitor-bikarsins. Hann hefði þó kosið að fá heimaleik.

„Það hefði verið mjög gaman og við vorum að vonast til þess. Ég held við höfum ekki fengið heimaleik í nokkur ár í bikarnum. Það er ágætt að fara í Mosó. Það er oftast gott veður, skjól og flottur völlur,“ sagði Gunnar að drættinum loknum.

Valur sigraði Stjörnuna 1-0 í 8-liða úrslitum sem margir vilja meina að hafi verið nokkurs konar úrslitaleikur í keppninni.

„Nei, ég vil ekki meina það. Við tókum líka stóran leik í 16-liða úrslitum gegn Breiðablik og það var einn úrslitaleikurinn. Annar svo í 8-liða úrslitum og ég held að þetta verði þriðji úrslitaleikurinn,“ sagði Gunnar.

Markmið Valskvenna eru skýr. Liðin ætla sér að vinna tvöfalt.

„Við erum búin að gefa það út að það sé markmið okkar. Vinna þessa tvo titla og halda þeim á Hlíðarenda,“ sagði Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×