Þjónustustúlka á hóteli í Washington hefur kært NFL-leikmanninn Albert Haynesworth fyrir kynferðislega áreitni. Haynesworth, sem leikur með Washington Redskins, er sagður hafa stungið kreditkortinu sínu ofan í brjóstahaldara þjónustustúlkunnar og þuklað á brjósti hennar í leiðinni.
Haynesworth neitar sök í málinu og ætlar að berjast fyrir dómi. Hámarksrefsing fyrir brotið er sex mánaða fangelsi.
Samkvæmt málsskjölum þá kom þjónustustúlkan til Haynesworth með diska í báðum höndum. Haynesworth vildi greiða og stakk kortinu því inn á brjóstahaldara stúlkunnar og gerðist ansi þreifinn í leiðinni.
Vitni í málinu segir að stúlkan hafi samþykkt að Haynesworth setti kortið í brjóstahaldarann en líklega hafi hún ekki samþykkt þuklið.
Haynesworth neitar þó öllu.
"Ég snerti hana ekki. Ég er ekki einu sinni hrifinn af svörtum stelpum," sagði hinn þeldökki Haynesworth.
